Leitin að réttu plöntunni

By Rannveig Guðleifsdóttir (rannveig) on June 24, 2011

Það er fátt skemmtilegra en að standa frammi fyrir því spennandi verkefni að hanna nýjan garð. Eða endurhanna gamlan garð sem er e.t.v. kominn í órækt. Þá er að mörgu að hyggja. Fyrst er rétt að huga að notagildi garðsins; hvernig hann muni veita eigendunum sem mesta ánægju. Skipuleggja dvalarsvæði og göngustíga, aðkomur og önnur „hörð svæði“. Svo er komið að þessu skemmtilega – að velja plönturnar.

2011-06-20/rannveig/6f063dFólk með plöntusöfnunaráráttu á háu stigi eins og ég fer yfirleitt öfugt að þessu. Ég sé flotta plöntu sem ég „verð“ að prófa og svo er höfuðverkurinn að finna henni stað. Útkoman getur verið fín að lokum en oft kallar þessi aðferð á tíða plöntuflutninga og tilfæringar til að hagræða og búa til pláss fyrir nýjar plöntur.

Hin leiðin – og kannski sú réttari, er að byrja á því að skipuleggja gróðurbeðin og leita svo að hentugum plöntum til að gróðursetja. Þá er gott að taka mið af birtuskilyrðum, skjóli eða skorti á því, jarðvegi, litavali, hæð og umfangi plantnanna og blómgunartíma. Þetta getur verið mikið og skemmtilegt púsluspil.

Fyrst þarf að skoða ytri skilyrðin: birtu, jarðveg og skjól. Ytri skilyrðin ráða miklu um hvaða plöntur henta á viðkomandi stað svo það mætti kalla það skylduval. Þegar verið er að útbúa nýtt beð skiptir öllu að byrja á grunninum og undirbúa jarðveginn vel. Það vex ekkert í blautri og klesstri mold, nema kannski mýrarplöntur. Stundum getur verið nauðsynlegt að skipta um jarðveg en oft er nóg að blanda moldina með góðum skammti af moltu og sandi. Steinhæðaplöntur þurfa betra frárennsli og þá er gott að blanda fínni möl saman við moldina. Jarðraki getur verið mikill á sumum blettum á meðan aðrir eru mjög þurrir. Það er bara ávísun á endalausa vinnu við að vökva að planta plöntum sem þola illa þurrk á þurra staði. Og plöntur sem þola illa raka lifa ekki í blautri mold. Næst er að huga að birtuskilyrðum. Þau skipta líka miklu máli. Sólelskar plöntur vaxa lítið og blómstra ekki í skugga og margar skuggaplöntur sviðna í sterku sólskini. Aftur á móti eru margar plöntur sem þrífast ágætlega í hálfskugga, þ.e þeim nægir að fá sól part úr degi. Að lokum er það svo vindurinn. Ef skjólið vantar er best að halda sig við lágvaxnar, veðurþolnar tegundir.

Þegar búið er að þrengja hringinn með skylduvalinu er komið að frjálsa valinu: hæð, blómgunartíma og lit. Þar kemur til smekkur hvers og eins, en þó er gott að hafa nokkur atriði í huga. Þumalputtareglan er að raða plöntum þannig að þær lægstu séu fremst í beðinu og þær hærri aftar. Til að hafa blómskrúð sem lengst er æskilegt að velja plöntur með breytilegan blómgunartíma. Þannig má hafa eitthvað í blóma frá apríl fram í október. Litaval er einnig smekksatriði. Sumum finnst erfitt að raða saman mörgum litum og einskorða sig við einn til þrjá liti til að einfalda málin á meðan aðrir blanda saman öllum litum regnbogans.

Að finna réttu plöntuna út frá öllum þessum breytum er ekkert einfalt mál. Ein leið til að auðvelda leitina er að nýta sér plöntugagnagrunna á netinu þar sem hægt er að leita að plöntum eftir ýmsum leitarskilyrðum. Það eru a.m.k fjórir slíkir gagnagrunnar til á Íslandi sem eru allir með mismunandi áherslum: Lystigarður Akureyrar; Yndisgróður; Félag garðplöntuframleiðenda og gagnagrunnur Garðaflóru, sem hefur þá sérstöðu að notendur geta lagt til upplýsingar og myndir um sínar plöntur í gagnagrunninn. Og þá er bara að hefja leitina. Góða skemmtun!

Lítillega breytt frá því greinin birtist fyrst hér.

2011-06-21/rannveig/e91aee2011-06-21/rannveig/cac06d2011-06-21/rannveig/009ed62011-06-21/rannveig/f63d6b2011-06-21/rannveig/5f3eff

Related articles:
plöntuleit

« More articles

Garðaflóra

Spjallsíða fyrir garðyrkjuáhugafólk á Íslandi. A gardening site for people gardening in Iceland

» Home
» Forums
» Articles
» Database

Cubit owner: rannveig

» Contact Admin: rannveig