By Rannveig Guðleifsdóttir (rannveig) on July 11, 2011
Klukkurunnar (Weigela) er ættkvísl smávaxinna runna sem allir eiga heimkynni sín í Austur-Asíu. Þeir bera nokkuð stór, klukkulaga blóm í bleikum, hvítum, rauðum eða gulum lit og virðast alltof skrautlegir til að eiga möguleika á að þrífast hér. Nú veit ég ekki hversu margar tegundir klukkurunna hafa verið reyndar hér en tvær þeirra hafa reynst ævintýralega vel.
Gullklukkurunninn (Weigela middendorfiana) er upprunninn í Japan. Hann er sá harðgerðari af þessum tveimur og verður líka mun stærri. Plantan sem vex í mínum garði er af yrkinu 'Hokki‘ sem Ólafur Njálsson í Nátthaga ræktaði af fræjum sem hann safnaði á Hokkaídó í Japan. Þetta yrki hefur vægast sagt reynst vel. Á þremur árum hefur hann vaxið í ca. 1,5 m hæð og rúman meter á breidd. Hann kelur lítið sem ekkert og myndaðist við að blómstra sínum fallegu brennisteinsgulu blómum í júní þrátt fyrir kulda og trekk.
Kóreuklukkurunninn (Weigela coraieensis), sem eins og nafnið bendir til er upprunninn í Kóreu, er mun smávaxnari. Á jafn löngum tíma hefur hann vaxið í ca. 40 cm hæð og er svipaður að umfangi. Hann þarf skjólbetri stað og getur kalið nokkuð og hefur blómgunin ekki alveg verið árviss. Þegar vel liggur á honum blómstrar hann sínum ævintýralega fallegu rósrauðu blómum um miðjan júní. Það dróst reyndar fram í lok júní að þessu sinni vegna kulda, en knúpparnir biðu þar til hlýnaði á ný.
Lítillega breytt frá því greinin birtist fyrst hér.